Sökk-vandi

Það eru margar leiðir til að ávaxta peninga. Það er einmitt það sem bankarnir gera. Peningar verða ekki til úr engu. Vonandi telur enginn að þeir komi bara utan úr buskanum... Bara frá útlöndum, af því að allir séu svo hrifnir af Íslandi og íslenskir bankamenn séu svo klókir fjárfestar og viðskiptamenn.
Það er vaxtamunurinn sem er óeðlilegur. Seðlabankinn ákvarðar leiðbeinandi stýrivexti. Samt er hann eini bankinn sem engum hagnaði skilar. Nú veit ég ekkert um seðlabanka en ég veit að hann hefur átt fullt í fangi með að halda genginu upp með handafli meðan allt féll í frjálsu falli. Allir aðrir veðjuðu á fallið og tryggðu sér gjaldeyrisforða og gengisávinning.
Samkennd hefði verið að standa saman eins og klettur úr hafi, halda að sér höndum og sýna umheiminum fram á annað. En þá hefði enginn grætt svona mikið. Allir hefðu beðið jafnan skell ef einhver hefði orðið.

Bankarnir bera enga samfélagslega ábyrgð. Ef gengið fellur, græða bankarnir. Ef einstaklingurinn verður gjaldþrota, hirðir bankinn sitt og afskrifar restina. Bankinn græðir alltaf og áhættan er engin. Ríkið ábyrgist starfsemina.

Hins vegar er auðvelt að hafa áhrif á eftirspurnina eftir krónunni.
Erlendir fjárfestar vilja gjarnan ávaxta sína peninga í hávaxtaumhverfi. Áhættan er gengisáhætta. Milliliðirnir eru íslensku bankarnir. Hvað gerist svo þegar fjárfestar innlendir jafnt sem erlendir hafa ávaxtað milljarðana sína um 10-16% (hóflega áætlað)? Þeir innleysa hagnaðinn og sækja á önnur mið til að þurfa ekki að borga fjármagnstekjuskatt. Krónan veikist í takt við markaðslögmálið um framboð og eftirspurn. Ef taugaveiklun grípur um sig fylgir í kjölfarið hrina smákaupmanna sem allir í örvæntingu reyna að losa sig við krónur. Krónan fellur enn. Þeir sem voru nógu forsjálir að eiga erlendan gjaldeyrisforða eru í góðum málum. Vitandi það að nú er hægt að kaupa krónur á kosta kjörum og fá fleiri krónur fyrir erlendu myntina en fyrir nokkrum dögum eða vikum síðan. Nú er ráð að fjárfesta og styrkja á ný tiltrú kaupenda á markaðinum. Eftirspurn eykst og krónan styrkist á ný. Ávöxtun. Er þetta ekki snjallt. Bjargi sér hver sem betur getur, skipið sekkur. Seðlabankinn einn við árar. Tær snilld.

íslenskt hagkerfi minnir um margt á rannsóknarstofulíkan sem unnt er að leika sér með í smækkaðri mynd og þar geta fjármálasnillingarnir sýnt snilli sína.

Nú eru menn með milljarða í vasanum og til að komast hjá fjármagnstekjuskattinum þarf að fjárfesta og kaupa meira. Fara með fullar hendur fjár og kaupa í næstu nágrannalöndum og staðgreiða.
Ríkið fær sína 10% fjármagnstekjuskatta af hagnaði eftir að veisluhöld og aðrar velgjörðarsamkundur, launakostnaður og allur mögulegur og ómögulegur risnukostnaður við rekstur banka og fjármálastofnana hefur verið gerður upp með bókhaldsbrellum.
Þetta er einungis ein leið af mörgum. Enda er ég augljóslega enginn fjármálaspekúlant.

Ég er stoltur af Íslendingum og gleðst yfir velgengninni en ég hef af því áhyggjur að það er ekki holt fyrir samfélagið þegar hópurinn verður of sundurleitur. Við erum jú öll sama sortin og 70% vatn þegar upp er staðið. Merkilegri er nú mannskepnan ekki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Gamall nöldurseggur
Gamall nöldurseggur
Svona rétt til að hlífa konunni við þessu endalausa röfli í mér.

Eldri færslur

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband