Færsluflokkur: Bloggar

Krónan gagnrýnd

Steve Forbes hefur nú skv viðtali við Fréttablaðið gagnrýnt stjórnun seðlabankans harðlega og telur brýnt að skipt sé um stjórn þar því þeir menn viti ekkert hvað þeir séu að gera.  

Hann telur að tímabært sé að kasta krónunni og taka tafarlaust upp Evru.

En Íslendingar vita betur...

Það er sennilega tilgangslaust að vera að gjamma þetta út í loftið því enginn les það hvort eð er.    Ég er búinn að skrifa þetta allt saman áður hér á blogginu og enginn hefur svo mikið sem litið á það.

Enda er þetta ekkert nýtt undir sólinni.


Karlinn kominn í kosningaham

Ef mig misminnir rétt, var þetta sama uppi á tenginunum fyrir 2 kjörtímabilum síðan.

Gott ef rétt reynist. Þó grunar mig að fleira þurfi að koma til en orðin tóm ef afnema á aflaheimildir með lagasetningu. Menn munu þá nota gróðann til að kosta bestu lagarefi sem völ er á, innanlands sem utan og berjast með kjafti og klóm. Það sem þarf að gera er að leggja kerfið niður og gefa veiðar tímabundið frjálsar einyrkjum og smábátaeigendum. Þeir geta þá selt fólki fisk við höfnina þegar þeir koma að landi uppúr hádeginu eða síðla dags.
Fra umhverfissjónarmiði séð er útlit fyrir að fiskverð fari hækkandi og þar af leiðandi verður aflinn verðmeiri eftir því sem hann er betur unninn. Þar af leiðandi legg ég til að stærð togara verði takmörkuð við smærri kúttera og að trukkarnir verði seldir meðan enná er eftirspurn eftir þeim. Það sem gerðist í loðnuvertíðinni í fyrra skilaði meiri hagnaði en árin á undan því að afinn sem kom að landi, þó að hann væri töluvert léttari en árin áður, var betur unninn og eftirspurnin og þar með verðið var hærra fyrir vikið. Þannig að þegar upp var staðið var hagnaður framleiðslunnar meiri, þrátt fyrir allt.

Addikiddagau, við studdum þig til þessa þegar þú gafst fyrst á þér færi. Ekki bregðast okkur nú.

Það er ekkert nýtt undir sólinni.


mbl.is Kvótagreifar sitja ekki á friðarstóli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Barnaklám

Nokkrar staðreyndir um gerendur:

1. Það standa allir ráðþrota gagnvart því hvað gera eigi við þessa aðila. Í ljósi þess að allar rannsóknir sem gerðar hafa verið í þá veru að sýna fram á hversu líklegir þeir séu til að taka upp þráðinn að nýju, hafa sýnt fram á að 60% láta hanka sig á einhverju. Og þar af voru 30% búnir að hljóta dóm fyrir grófa misnotkun á börnum, ítrekað.

Ef þetta er skoðað í ljósi þess að önnur rannsókn sem gerð var á brotamönnum sem sátu inni fyrir dæmd afbrot sem sönnuð voru uppá þá gagnvart 1-2 börnum. Var meðaltal fórnarlamba þessara einstaklinga 110 börn. Þannig að miðað við það má áætla að einungis toppurinn á ísjakanum standi fyrir dómi. Það er álitið að meira en 80% tilfella séu aldrei tilkynnt.

Og þegar talið er að eitt af hverjum 3 stúlkubörnum verði fyrir misnotkun í einhverri mynd og 1/7 drengjum, þá er eðlilegt að foreldrar spyrji hvort ekki sé eitthvað hægt að gera til að vernda börnin.

Það er svo erfitt að gera rannsóknir sem sýna óyggjandi fram á árangur meðferðar að við getum ekki staðið aðgerðalaus hjá og beðið. Það er grunur allra sem koma að meðferð þessara einstaklinga að þeir séu ólæknandi og munu alltaf hafa þessa sömu löngun. Hversu vel þeim tekst svo að halda aftur af henni skal ósagt látið. Kynhvötin er nefnilega einn stærsti umbunarmekanisminn í heilanum. Allt sem veitir þér fullnægingu styrkist í frumheilanum og kallar á meira af sama. Fíkniefni verka á sama hátt ávanabindandi með því að margfalda áhrifin með losun boðefna úr heilanum með nk skammhlaupi. Hversu vel gengur mönnum að hætta að reykja, vaknar ekki stundum löngun, þótt menn séu hættir?

Það er alveg ljóst að á þessu máli verður að taka traustum tökum og það strax.

Klámvæðingin gerir þessum mönnum auðveldara fyrir og því vaknar upp spurning um hvort að þol okkar fyrir klámöldunni sé ekki of hátt. Og þá í framhaldi spurningin um hvar setja eigi mörkin?

Nýlega var í Danmörku verið að fjalla um 13 ára stúlku sem var misnotuð af manni sem hún sendi nektarmyndir af sér. Hann hótaði að sýna foreldrum hennar myndirnar og gera þær opinberar nema hún þýddist hann, sem og hún gerði ítrekað.

Annað óhuggulegt mál var þegar einn af helstu forvarnarforkólfunum gegn barnaklámi var leiddur í gildru svipaða og fréttastofan NFS hefur verið að gera heima. Hann var þá bara úlfur í sauðagæru.

Ein af hverjum 3 stúlkum. Það er kannski ástæða þess að menn vilja ekki vera of ákafir með refsivöndinn?


Á hlýlegum nótum

Það er ekki einleikið hvernig öfgarnar í verðrinu hafa verið á undanförnum árum. Í Danmörku hefur gróður víða ekki fölnað. Tré voru að blómstra í janúar og vorlaukar að stíga upp úr moldinni. Veturinn hefur verið sá mildasti frá því að mælingar hófust.
Það er mikilvægt að allir geri sér grein fyrir því hvernig hægt er að koma að þessu máli. Það eru margar leiðir færar en óvíst hvort að áhrif okkar mannanna séu eins stórvægileg og við viljum vera láta. Það er nefnilega um að ræða fleiri en eitt fyrirbæri. Eitt er nefnt greenhouse effect, gróðurhúsaáhrif og byggist upp á uppsöfnun kolvetnis vegna notkunar á kolefniseldsneyti, m.a. Annað er hlýnun jarðarinnar, global warming sem hugsanlega er ekkert síður hættulegt. Menn vilja meina að mengunin í loftinu haldi aftur af hlýnun með því að draga úr varmageislun. Þar af leiðandi mun tærara loft gera geislum sólarinnar kleift að velgja okkur ennþá frekar undir uggum.
Nú er bara að bíða þess að fræðimaðurinn, Andri Snær sendi okkur nýja handbók til leiðsagnar á hverfanda hveli.

Er nokkuð hlýtt undir sólinni?


mbl.is Hlýnun andrúmsloftsins mun gerbreyta jörðinni á 100 árum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dómgreind

Er nú ekki komin upp sú spurning hvort að dómarar þurfi endilega að vera lögfræðingar. Þeir þröngva málum svo í stífan ramma laganna að réttlætið verður að lokum það sem undan skreppur. Ég veit vel að þeir fá til ráðuneytis ýmsa prófessora og forsvarsmenn ólíkra fræðasviða. Á endanum tel ég að lögfræðilegur þankagangur hefti mjög dómara í réttlátri dómsuppkvaðningu. Alla vega finnst mér færast mjög í vöxt óánægja þjóðarinnar með úrskurði þeirra í fjölmörgum málum. Allir muna eftir konunni sem "átti skilið að verða lamin" og dómurinn gagnvart sambýlismanni hennar var mildaður fyrir vikið. "Hún hefði ekki átt að ögra honum, átti að vita betur".

Það þarf að skilgreina glæpinn og refsingin verður að vera þannig að mönnum þyki málagjöldin makleg.
Á þessu eru svo ennþá fleiri hliðar.

1. Fórnalamb sakamannsins hefur beðið eitthvert tjón.
Tjónið er óbætanlegt og mun kosta einstaklinginn erfiðleika og átök sem beint eða óbeint geta talist stafa af óæskilegri reynslu þeirra af ódæðinu.
Þetta tjón er engin leið að bæta með peningum. Að nefna einhverja upphæð er hreinasta móðgun. Hvað kostar að kúga fólk? Hvernig komast menn að einhverri bótafjárhæð. Sér í lagi nú þegar verðmætamat manna er komið út fyrir alla hefðbundna staðla?

2. Samfélagið mun þurfa að greiða fyrir læknisþjónustu og aðra endurhæfingu allra aðila. Það er sannað að tíðni geðraskana er algeng hjá fórnarlömbum kynferðiglæpa. Ef til vill munu veikindi sem beint eða óbeint má rekja til áfalla tengdum glæpinum verða til þess að einstaklingur geti ekki sinnt fjölskyldu sinni, vinnu eða örðum mikilvægum störfum í þágu sjálfs sín og samfélagsins. Hver er bótaskyldur fyrir slíku tapi?

3. Hver er tilgangurinn með refsingunni? Er um að ræða betrunarvist, hegningu eða hefnd?

4. Eru líkur á að brotamaðurinn muni að lokinni afplánun gerast brotlegur á ný? Þarna er því miður sú dapurlega staðreynd að líkindin á því að hann gerist brotlegur á ný eru yfirgnæfandi og þó það hafi ekki verið rannsakað tvíblint (af augljósum ástæðum) þá er 95% víst að aðilinn muni með einhverjum hætti snúa aftur að fyrri iðju. (5% líkur á að hann taki eigið líf). Sem sagt endurhæfingin er ekki fólgin í refsingunni.

5. Hvaða hlutverk hefur sakborningur í þjóðfélaginu? Hvers virði er hann samfélaginu. Hver er skaðinn sem hann hefur unnið á samfélaginu og í annan stað á einkahagsmunum fórnarlamba sinna.

Er hægt að gera dómara vondra dóma persónulega ábyrga fyrir þeim missi sem síðar sannast að menn hafi orðið fyrir en dómsúrskurðurinn gerði ekki ráð fyrir?

Er ekki kominn tími til að sjá eitthvað nýtt undir sólinni?


mbl.is Hæstiréttur styttir dóm yfir kynferðisglæpamanni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Of gott til að vera satt

Þegar eitthvað er of gott til að vera satt er ekki ólíklegt að svo sé...

Það hagnast ekki allir á erlendum fjárfestingum. En hvað var maðurinn annars að halda að hann ætti frænda í Nigeriu sem ætlaði að arfleiða hann að öllum sínum eigum. Vonandi tók hann ekki yfirdráttarlán fyrir útborguninni.
Ef þið fáið svona bréf er um að gera að áframsenda þau á embætti ríkislögreglustjóra, hann heldur utan um svona mál. Ef svo ólíklega vildi til að um fjarskyldan ættingja væri að ræða er ekki ólíklegt að sá hinn sami hefði fyrir því að hafa samband við lögmann hérlendis til að fara með umboð sitt.

Það er ekkert nýtt undir sólinni.


mbl.is Töpuðu tugum milljóna til svindlara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er snjór?

Er nóg að fyrirbærið falli af himnum ofan að vetrarlagi svo að það geti kallast snjór? Eru þetta kristallaðar einingar? Það væri nú fróðlegt að fá nánari upplýsingar um málið áður en lengra er haldið. Svona frétt/innskoti þarf að fylgja tengill á ýtarefni. Etv geta áhugasamir blaðamenn leitað fanga í fræðiriti Andra Snæs Magnasonar um uppsetningu fræðirita með skáldsögulegu ívafi.

Skyldi þetta vera eitthvað nýtt undir sólinni?


mbl.is Marglitur og illa lyktandi snjór fellur í Rússlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjöllyndi flokkurinn?

Hvernig má það vera að nú þegar íslenska lýðveldið hefur staðið í endurreisn frá stríðslokum í rúma 6 áratugi, að löggjafarsamkundan er ennþá í sama smalamanna búninginum og þegar undirbúningur heimastjórnar stóð yfir fyrir 2 aldarmótum síðan?
Má ekkert breytast með vaxandi upplýsingu?

Hvernig má það vera að pólitík snúist alltaf um allt regnbogans litróf frá vinstri grænum til helblárra hægriafla?

Er nauðsynlegt að sá sem vill efla einum aðila brautargengi þurfi einnig að dragnast um með alla þá fornaldar fjóshauga sem líka vilja vera með. Náðaða tugthússlymi og aðra ofbeldismenn. Er þetta hópíþrótt?

Er alveg deginum ljósara að ef meirihlutinn vilji eitthvað, þurfi minni hlutinn að vera því mótfallinn og öfugt. Er svona stór munur á öllum okkar þörfum og skoðunum að núningur öndverðra póla sé nauðsynlegur.
Getur verið að unnt sé að kanna viðhorf fólks með öðrum hætti en verið hefur með Gallup símakönnun og atkvæðasmölun fyrir kostningar. Er það ekki félagshyggju-sjónarmið í sjálfu sér að vera í stjórnmálaflokki.

Það er kúl og inn að vera í sjálfstæðisflokkinum. En reyndin er bara sú að annað er ekki í tísku. Hvað á maður þá að gera ef maður vill sjá frambærilega einstaklinga á þingi en vill alls ekki vinna í því pólitíska umhverfi sem búið hefur verið til í kringum sjálft stjórnarfyrirkomulagið.

Ég nenni ekki að horfa upp á enn einn ungan lögfræðinginn, glottandi, glaðhlakkalegan að veikleika í rökfærslum annars ágætra einstaklinga. Eyðileggjandi góðar hugmyndir með útúrsnúningum og orðagjálfri í umræðuþáttum ljósvaka.
Þetta er mín sýn á pólitík sem ég annars hef engar mætur á.

Hvað gera þingmenn?

Má fyrirkomulagið breytast.?


Sökk-vandi

Það eru margar leiðir til að ávaxta peninga. Það er einmitt það sem bankarnir gera. Peningar verða ekki til úr engu. Vonandi telur enginn að þeir komi bara utan úr buskanum... Bara frá útlöndum, af því að allir séu svo hrifnir af Íslandi og íslenskir bankamenn séu svo klókir fjárfestar og viðskiptamenn.
Það er vaxtamunurinn sem er óeðlilegur. Seðlabankinn ákvarðar leiðbeinandi stýrivexti. Samt er hann eini bankinn sem engum hagnaði skilar. Nú veit ég ekkert um seðlabanka en ég veit að hann hefur átt fullt í fangi með að halda genginu upp með handafli meðan allt féll í frjálsu falli. Allir aðrir veðjuðu á fallið og tryggðu sér gjaldeyrisforða og gengisávinning.
Samkennd hefði verið að standa saman eins og klettur úr hafi, halda að sér höndum og sýna umheiminum fram á annað. En þá hefði enginn grætt svona mikið. Allir hefðu beðið jafnan skell ef einhver hefði orðið.

Bankarnir bera enga samfélagslega ábyrgð. Ef gengið fellur, græða bankarnir. Ef einstaklingurinn verður gjaldþrota, hirðir bankinn sitt og afskrifar restina. Bankinn græðir alltaf og áhættan er engin. Ríkið ábyrgist starfsemina.

Hins vegar er auðvelt að hafa áhrif á eftirspurnina eftir krónunni.
Erlendir fjárfestar vilja gjarnan ávaxta sína peninga í hávaxtaumhverfi. Áhættan er gengisáhætta. Milliliðirnir eru íslensku bankarnir. Hvað gerist svo þegar fjárfestar innlendir jafnt sem erlendir hafa ávaxtað milljarðana sína um 10-16% (hóflega áætlað)? Þeir innleysa hagnaðinn og sækja á önnur mið til að þurfa ekki að borga fjármagnstekjuskatt. Krónan veikist í takt við markaðslögmálið um framboð og eftirspurn. Ef taugaveiklun grípur um sig fylgir í kjölfarið hrina smákaupmanna sem allir í örvæntingu reyna að losa sig við krónur. Krónan fellur enn. Þeir sem voru nógu forsjálir að eiga erlendan gjaldeyrisforða eru í góðum málum. Vitandi það að nú er hægt að kaupa krónur á kosta kjörum og fá fleiri krónur fyrir erlendu myntina en fyrir nokkrum dögum eða vikum síðan. Nú er ráð að fjárfesta og styrkja á ný tiltrú kaupenda á markaðinum. Eftirspurn eykst og krónan styrkist á ný. Ávöxtun. Er þetta ekki snjallt. Bjargi sér hver sem betur getur, skipið sekkur. Seðlabankinn einn við árar. Tær snilld.

íslenskt hagkerfi minnir um margt á rannsóknarstofulíkan sem unnt er að leika sér með í smækkaðri mynd og þar geta fjármálasnillingarnir sýnt snilli sína.

Nú eru menn með milljarða í vasanum og til að komast hjá fjármagnstekjuskattinum þarf að fjárfesta og kaupa meira. Fara með fullar hendur fjár og kaupa í næstu nágrannalöndum og staðgreiða.
Ríkið fær sína 10% fjármagnstekjuskatta af hagnaði eftir að veisluhöld og aðrar velgjörðarsamkundur, launakostnaður og allur mögulegur og ómögulegur risnukostnaður við rekstur banka og fjármálastofnana hefur verið gerður upp með bókhaldsbrellum.
Þetta er einungis ein leið af mörgum. Enda er ég augljóslega enginn fjármálaspekúlant.

Ég er stoltur af Íslendingum og gleðst yfir velgengninni en ég hef af því áhyggjur að það er ekki holt fyrir samfélagið þegar hópurinn verður of sundurleitur. Við erum jú öll sama sortin og 70% vatn þegar upp er staðið. Merkilegri er nú mannskepnan ekki.


Náttúruleysi

Íslendingar eiga möguleika á að verða öðrum til fyrirmyndar í umgengni við náttúruna. Við þurfum að stíga skref til framfara. Td væri unnt að afnema tolla á umhverfisvænar afurðir og orkusparandi. Ss. vönduð raftæki og ljós sem spara orku og endast. Kasta ekki krónum í einnota og orkufrekt rusl sem lekur straumi. Einnig er unnt að setja upp leiðarkerfi rafvagna sem ganga erilsömustu leiðir borgarinnar og tengja saman þjónustukjarna og bílastæði. Ef Kárahnjúkaborarnir yrðu notaðir væri hægt að útbúa einhvers konar hraðlestir, neðanjarðar. Þegar svona hugmyndir eru lagðar fyrir er spurt um arðsemi. Hún yrði ekki mælanleg í krónum á kjörtímabili en hins vegar yrði hér um að ræða gjöf til lands og þjóðar sem greiðir sína skatta og skyldur og vill búa í samfélagi. Það eru margar leiðir færar og allar betri en sú sem nú liggur í farvatninu. Það er löngu orðið tímabært að við hugum að framtíðinni. Það ætlar sér enginn að vinna við stóriðju og að Íslendingar skulu voga sér að nýta mengunarkvóta sinn og verðleggja sem auðlynd er hneikslanlegt. Þeir gætu af sama skapi boðist til að urða kjarnorkuúrgang í einhverjum hinum fjölmörgu hellum landsins. Það eru allir í vandræðum með að losa sig við hann hvort eð er. Hugmyndin er fráleit en það er einmitt málið.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Gamall nöldurseggur
Gamall nöldurseggur
Svona rétt til að hlífa konunni við þessu endalausa röfli í mér.

Eldri færslur

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband